Hún á afmæli í dag ...
...hún á afmæli í dag.
Lambið mitt er tuttugu og eins árs í dag. Til hamingju keisari, spergill og snúður.
Það hefur mjög margt á dagana drifið síðan ég bloggaði síðast.
T.d. varð hann Maggi Garpseigandi afi í dag, fékk 14 marka sonarson - til hamingju með það piltar.
Svo þetta af opinberum vettvangi:
Árni Johnsen býður sig fram til Alþingis. Ja, þetta kemur auðvitað flatt upp á mann, ég átti satt að segja bara alls ekki von á þessu.
Svo sá ég í Mogganum fyrir helgi þessa fyrirsögn: Sleginn blindu af völdum sjaldgæfs sjúkdóms. Síðan millifyrirsögn; Sækist eftir 4. - 5. sæti á lista Samfylkingarinnar á Suðurlandi.
Ótrúlegt hvað ég hef verið upplýst um margt á stuttum tíma. Loksins hef ég skilið af hverju fangelsið var sett niður að Litla Hrauni, Sunnlendingar eru miklu umburðarlyndari gagnvart brotamönnum en aðrir landsmenn. Svo hef ég líka fengið skýringu á því hvað fær menn til að kjósa Samfylkinguna, það er sjaldgæfur blindusjúkdómur sem veldur því.
Helgin var samfelld gleði og djamm. Ég er enn þreytt eftir alla þessu stífu skemmtun. Til að æra ekki óstöðugan, þá er hér mjög hrá frásögn: Út að borað, leikhús - Mein Kampf, sofa, vakna, bröns, dekur á Mecca Spa, búðaráp, opnun málverkasýningar á Solon Islandus, grillað, etið, kjaftað, helgið, partý lengst inn í Kópavogi, Players - jómfrúarferð, langt í næstu. Sofið, vaknað, heimsókn til Perlu og hvolpanna - algerar dúllur, heimsókn til Hrafnkels A., heimsókn á Fálkagötu, bæjarráp með Mirek og Gunnhildi, lambasteik með Siggu, videókvöld - Frends with money - óhemju langdregin mynd og svo bara allt í einu búin. Urðum að spóla til baka því við tókum ekki eftir því að myndinni lauk. Sofa, vakna, bæjarrand með Önnu Berglind, heimsókn til Gunnars og Guðnýjar, niður á bryggju, skoða Tý og heilsa Nonna, út á flugvöll og heim.
Flugið heim var ólýsanlegt. Það var svo bjart og fallegt að horfa yfir Vatnajökul og svo að koma yfir austfirska hálendið - sorglegt að sjá vísi að Hálslóni. Gaman að sjá Snæfell í allri sinni dýrð, Fljótsdalsheiðina, Fljótsdalshérð og Austfjarðafjallgarðinn í sínum fegursta haustbúningi.
Það var gott að búa í Kópavogi, en ég held það sé enn betra að búa á Héraði.