Þakklæti
Ég hef verið að velta fyrir mér hugtakinu þakklæti.
Oft er maður þakklátur fyrir eitthvað sem gerist en súr yfir einhverju sem gerist ekki.
Stundum er þetta öfugt, maður er súr yfir einhverju sem gerist en þakklátur fyrir að eitthvað gerist ekki.
Ég er hálf súr yfir að hafa dottið á svellinu sl. sunnudag og er enn aum í vinstri handleggnum. Hins vegar er ég mjög þakklát fyrir að ég skyldi ekki brotna og úr því að ég þarf endilega að vera aum þá er betra að vera aum í vinstri handlegg en þeim hægri þar sem ég er rétthend.
Þetta flokkast víst undir að lifa samkvæmt lífsspeki Pollýönnu. Það þykir ekki gáfuleg heimspeki en hún hentar mér svo ljómandi vel, það er mikil sóun að eyða tímanum í að ergja sig að óþörfu.
Vorið tyllti tánum létt niður á Fljótsdalshéraðið í dag. Um hádegi náði sólin meira að segja að verma loftið svolítið.
Eftir vinnu fór ég í fyrstu hjólaferðina á árinu, göturnar eru orðnar nægilega auðar fyrir reiðhjólin. En það var ansi napurt að hjóla heim aftur móti nístandi vindinum utan af Héraðsflóa.