Strandfatahönnun
Það styttist í að við Tóta og Skúli komumst í sólina.
Við Tóta höfum ráðið okkur sérstakan stílista til að hanna og útfæra strandklæðnað á okkur, við erum jú nútímakonur.
Það kom auðvitað ekki annað til greina en að fá fagmann í verkið, við sem félagar í Gleðikvennafélagi Vallahrepps förum alls ekki að fara út fyrir okkar sveit eins og niðursetningar til fara.
Til verksins var ráðin frú Stefanía Steinþórsdóttir textílkona og vefnaðarkennari á Hallormsstað. Hún ber sem sagt faglega ábyrgð á útliti okkar í útlöndum, við berum samt sjálfar ábyrgð á hegðan okkar.
Þemað í mínum klæðnaði er hvítt og túrkisblátt en þemað í Tótu klæðnaði er rautt og svart.
Sissa, eins og við kjósum að kalla frú Stefaníu, hafði orð á því í gær hvort ekki ætti að hanna lúkk á Skúla. "Á Skúla???" á hann ekki bara svarta sundskýlu til að vera í?
Jæja, við Tóta ákváðum að þemað hjá Skúla gæti verið strandlitaður klæðnaður, til að hann tæki ekki of mikla athygli frá okkur tveimur og svo þessi svarta sundskýla.
Við verðum ógeðslega flottar á ströndinni, já og Skúli verður örugglega flottur líka.
Mikið væri gaman ef hann Jón Guðmundsson fyrrverandi vinur Eymundar í Vallanesi og fyrrverandi barnakennari myndi fá innblástur af því að hugsa um okkur þrjú á ströndinni og myndi mála af okkur eina af sínum glaðlegu vatnslitamyndum.
Færi kannski betur á að mála tvær Jón.