02 febrúar 2007

Ammæli

Áður en ég veit af verð ég orðin fimmtug.
Ég var að spjalla við æskuvinkonu mína, hana Önnu Stellu, fyrir ekki löngu síðan og þá barst talið að því að síðari hluta næsta árs verðum við fimmtugar, hún í ágúst en ég í nóvember.
FIMMTUGAR, Jesús, Pétur og Jóhannes, við sem erum alltaf 16.
Anna Stella er með smá gyðingablóð í æðum sínum og hún sagði mér að hún væri byrjuð að leggja fyrir til að eiga fyrir afmælisveislunni. Alltaf fyrirhyggjusöm. Nema hvað ég ákvað að fara að hennar dæmi og tók aftur í notkun bankareikninginn minn sem einu sinni hét Púður og pjatt en nú heitir hann Ammæli. Ég legg fyrir ákveðna upphæð á mánuði og nú er ég búin að safna mér fyrir efni í nokkrar hnallþórur.
Ég hafði bara hugsað mér svona venjulegt afmæli, vinir, vandamenn og veitingar. En svo er maður að lesa um hvernig fimmtugsafmæli eru nú til dags. Forstjóri Samskipa fékk Elton John til að taka lagið og Árni Matthíasson á Mogganum fékk seytján hljómsveitir til að taka lagið í sínu fimmtugsafmæli.
Jamm og já, ég er nú ekki svona stöndug, hafði séð fyrir mér að Konni kynlegi mætti með hljóðfærasafnið sitt og Eymundur hennar Ragnheiðar myndi halda uppi fjöri við gítarundirleik.
En þetta er náttúrlega bara lummó og ég þarf að endurskoða planið.
Ég þekki reyndar nokkra fræga tónlistarmenn, eða öllu heldur foreldra þeirra og gæti kannski samið við einhverjar, sérstaklega ef ég geri það tímanlega.
En svo mundi ég eftir honum Brjáni frænda mínum. Hann er alger stuðbolti og hann og reyndar nokkrir aðrir ættingjar mínir, eru saman í hljómsveit. Ég fæ auðvitað bara Brján til mæta með með sína hljómsveit svo þetta verði nú boðlegt afmælissamsæti.
Spurningin er bara hvar ég get komið þeim fyrir, þessi hljómsveit er nefnilega frekar fjölmenn og kallast Sinfóníuhljómsveit Íslands.

|