26 desember 2006

Rauð jól

Þessi jól eru rauð, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.
Snjórinn sem ég hef verið að kafa frá því í haust hvarf að mestu síðustu dagana fyrir jólin en skildi eftir sig svell hér og þar.
Þemað í jólaskreytingunum hjá mér er rauði liturinn, hvað sem öllum tískubylgjum líður. Ljósin hjá mér eru hvít og rauð, jólatréð í stofu stendur með rauðum kúlum og gylltu skrauti. Lambinu mínu þótti þetta frekar einhæft jólaskraut svo tréð er líka skreytt með íslenska fánanum, einhverjum pappírsfánum á snúru, gott ef þetta er ekki bara frá því að ég var krakki. Mér finnst alla vega að ég hafi alltaf átt þessa fána. Reyndar á ég danska ríkisfánann líka í sams konar útgáfu og hann hefði auðvitað farið vel í rauða þemanu, en ég vildi nú frekar hafa íslenska fánann á trénu mínu.
Tréð er sérstaklega falleg lindifura sem ræktuð var af hjónunum í Brekkugerði í Fljótsdal og við fjárfestum í hjá Rumnum í Barra núna fyrir jólin þegar ljóst var að lambið mitt var ekki í skapi til að fara út í skóg og fella tré.
Svo til að gera jólin mín enn rauðari þá eru allir jólagestirnir mínir frá fyrrum kommúnistaríkjum. Annar tengdasonurinn frá Norðfirði en hinn frá Warsjá. Eins og undanfarin ár kom Ronald þýskukennari og borðaði með okkur jólahangikjötið, hann er frá Austur-Berlín, Sigga litla lögga var hjá okkur á aðfangadag, hún er að 1/4 Austur-Þjóðverji og svo kemur pólski tengdasonurinn með systur sína með sér í jólaheimsóknina í ár þannig að það er ljóst að þetta verða rauðustu jól sem sögur fara af á heimilinu.

|