17 desember 2006

Á heimleið

Sit hér úti á Grímsstaðarholti og hef það ljómandi huggulegt.
Ég er samt ánægð með að eftir 4 klukkutíma verð ég komin heim til Kolgrímu minnar.
Þetta hefur verið afar vel lukkuð kaupstaðarferð, sama hvernig á hana er litið. Kannski helst að Vísakortið hafi verið misnotað, en það eru nú að koma jól og það er langt fram í febrúar.
Við fórum saman við Sigga sæta og Inga Klemma og sáum James Bond. Hann er auðvitað flottur, en ég myndi samt frekar nota um hann lýsingarorð Skógarmanna, fjarskafallegur, því mér þykja augun í honum ekki heillandi.
Á meðan við Sigga lifðum okkur inn í ævintýri Jóns Bónda, hnypptum í hvor aðra þegar eitthvað merkilegt var að sjá, fékk Inga sér fegrunarblund í þægilegu sæti sínu í Smárabíói.
Við Selma skruppum út á landa og skoðuðum nýju Ikea-verslunina sem er einhvers staðar lengst úti í hrauni. Sem betur fer er ódýr og fín matsala þar svo við fengum okkur í gogginn áður en við héldum aftur til borgarinnar.
En nú sit ég sem sagt yfir kaffi og eðalfínu bakkelsi og bíð þess að tími verði til kominn að fara út á flugvöll. Það er eins gott að ég á ekki heima hér með Björnsbakarí úti á næsta horni. Ég myndi verða amerísk fitubolla á nokkrum vikum. Ég sem hef stundum hugsað um að þegar ég verði gömul þá ætli ég að búa hér á Fálkagötunni og á góðviðrisdögum muni ég sitja úti á svölum og fylgast með forseta vorum úti á Bessastöðum í sjónauka.

|