26 nóvember 2006

Hvern langar í kött?

Er ekki einhver þarna sem lætur sig dreyma um kött?
Það skal strax tekið fram að hér er ekki um hana Kolgrímu mína að ræða, hún verður áfram húsbóndi á okkar heimili.
Ég var úti á Eiðum í dag þar sem við klúbbsysturnar héldum kaffisamsæti fyrir erlendu konurnar frá Kárahnjúkum. Þetta var afar ljúf og góð stund sem við áttum þarna, konur alls staðar að úr veröldinni. Það var töluð franska, ítalska, enska og íslenska, mjög alþjóðlegt.
Við höfum boðið konunum til okkar og þær boðið okkur til sín undanfarin ár og það hefur verið virkilega skemmtilegt að kynnast þeim.
Ég átti reyndar svolítið bágt í upphafi því ég hef alla tíð verið á móti þessum framkvæmdum en ég tók þann pól í hæðina að láta það ekki koma niður á þessu tækifæri til að kynnast skemmtilegum konum.
En nú fer dvöl þeirra á fjöllum að ljúka og þá kemur smá babb í bátinn. Það eru nefnilega nokkrir kettir þarna sem nú verða heimilislausir.
Hvernig sem á því stóð fór ein kona að segja mér frá vandræðum sem ein ung ítölsk kona ætti í. Ég er sennilega svona mörkuð af kattaást. Sú ítalska á nefnilega læðu sem er u.þ.b. árs gömul og hún er búin að eignast tvo yndislega sæta kettlinga sem nú eru tveggja og hálfs mánaða. Það gerðist ekkert kraftaverk á fjöllum, það er einn fress þarna uppfrá sem útskýrir hvernig komið er.
Nema hvað, læðuna og kettlingana vantar íslenskt heimili eftir áramót. Reyndar ætla ég að fá annan kettlinginn, voða sæta gulbröndótta læðu. Ég sá myndir af þeim, algerar dúllur. Það verður fínt fyrir Kolgrímu að fá félagsskap.
Ég á von á myndum af kisunum í tölvupósti þannig að ef einhver hefur áhuga á að fá sér fjallakött þá vinsamlegast látið mig vita.

|