03 nóvember 2006

Karlaheimur

Súbarúinn er greinilega hinn besti bíll.

Ég uppgötvaði það áðan að ég hef bara ekki þurft að fara á bílaverkstæðið mitt síðan fyrir síðustu jól. Ég átti erindi þangað í dag og það var kominn nýr starfsmaður. Þegar ég innti hann eftir því hvort hann væri nýbyrjaður á verkstæðinu sagði hann mér að hann væri búinn að vera þar í 7 mánuði. Sjö mánuði, ég verð greinilega að láta líta oftar á bílinn fyrir mig. Ég fer sko með hann á annan stað í olíu- og dekkjaskipti.

Þetta var nú ekki stór aðgerð sem þurfti að gera á Súbbanum, bara skipta um peru í öðru framljósinu, svo ég bara fór að skoða mig um í sýningarsalnum meðan ég beið - þetta er sko líka bílasala - það var einmitt þarna sem ég keypti Súbarúinn. Nema hvað allt í einu uppgötvaði ég að ég var stödd mitt í heimi karlmannsins. Nýir bílar, snjósleði, þægilegur sófi, sjónvarp í gangi og yfir þessu héngu margar krónur af hreindýrstörfum.

Ótrúleg veröld.

|