17 október 2006

Aumingja kisa

Ég er heppin að hún Kolgríma mín varð ekki úti í nótt.
Þegar ég fór í háttinn í gærkvöldi þá mundi ég ekkert eftir því að kisa hafði stungið sér út fyrr um kvöldið.
Svo bara sofna ég sætt og vært og veit ekki af mér fyrr en um kl. 3.30 en þá finnst mér eins og ég heyri mjög ámátlegt "mjááá, mjááá" fyrir utan gluggann minn.
Ég snarast fram og hugsa hvort það geti verið að kisa sé úti. Opna út í garð og kalla lágt "kis, kis" - vildi ekki vekja nágrannana. En það kom engin kisa svo ég hugsaði að mér hefði misheyrst, lokaði dyrunum og ætlaði aftur upp í ból.
Þá heyri ég kallað í örvæntingu "mjáá, mjáá, mjá" og ég fór aftur út í dyr og kom þá ekki Kolgríma mín á stökki inn. Hún mjálmaði og mjálmaði og fylgdi mér inn í herbergi, hentist upp í rúm og þegar ég var búin að koma mér fyrir lagðist hún ofan á mig og vildi aldeilis láta strjúka sinn silkimjúka og ískalda feld. Á meðan malaði hún svo undir tók í veggjunum.
Aumingja kisa mín.

|