16 október 2006

Nýr bloggari

Ég vil vekja athygli á nýjum bloggara, Konna kynlega - sjá krækju.
Eins og nærri má geta er hér um dulnefni að ræða - það gefur engin móðir barni sínu þetta nafn.
Sá sem hér stýrir penna, eða öllu heldur leikur á lyklaborð, er einn af þessum fyrrum myndarlegu Vallamönnum. Hann fékk meira að segja ótiltekinn fjölda atkvæða í kosningu Rásar 2 um kynþokkafyllst karlmanninn og það ár fékk Guðjón tónlistarkennari líka atkvæði. En það var við ramman reip að draga því Logi Bergmann bara sigur úr bítum.
Þessi tveir, Guðjón og Konni, fóru ásamt Onna sem hlaut titilinn Kyntröll Vallamanna á síðasta þorrablóti, suður til Reykjavíkur og hugðust meika það í meira fjölmenni. En hvað skeður, þeir bara hverfa í fjöldann - aldrei sé ég þá alla vega á síðum Séð og heyrt. Þessi þrír vitringar sem konur á Héraði dáðu og dýrkuðu - hvað sem Sif segir.
Ítalska fyrirtækið Impregilo hefur reynt að bæta okkur konum á Héraði skaðann með því að flytja inn sýnishorn af karlmönnum alls staðar að úr veröldinni. Það er ekki þar fyrir að það er svo sem eitt og eitt eigulegt eintak innan um. En "gæti ég fengið að klípa í eitthvað íslenskt, eitthvað gamalt og gott" því "...íslenskir karlmenn eru sko alls engar gungur", svo ég grípi til og staðfæri dægurlagatexta.
En Konni - velkominn í heim bloggara.

|