Háskaferð
Nagladekk eða ekki nagladekk, þar liggur vafinn.
Það er slyddurigning á Egilsstöðum núna. Á Öxi er blindbylur og byrjað að draga í skafla.
Ástæðan fyrir því að ég veit hvernig veður og færð eru á Öxi er að ég var að koma heim frá Höfn. Það kostaði mig mikil heilabrot í gær hvort ég ætti að setja nagladekkin undir Súbarúinn eða taka sénsinn og fara suður eftir á sumardekkjunum. Þið vitið hvernig þetta er, það kemur eitt hausthret og maður lætur skipta um dekk og svo er auð jörð fram að jólum.
Ákvað að láta dekkjaskiptin bíða og ég hálf sá eftir því á leiðinni yfir Öxi því það var líka hálka þar á köflum, fyrir utan að maður átti fullt í fangi með það sums staðar að sjá hvar vegurinn lægi, ekki síst þar sem vegagerðamenn voru búnir að fjarlægja allar stikur vegna framkvæmda.
En Súbarú er góður bíll og þetta hafðist allt.
Nú hef ég unnið mér fyrir extra góðu freyðibaði.