Það snjóar og snjóar og snjóar og snjóar
Það er bara 25. október, hvað á allur þessi snjór að fyrirstilla.
Það eru rúmir tveir mánuðir síðan ég tók jólaseríuna niður úr þakskegginu og tæpir tveir mánuðir þar til ég þarf að koma henni upp aftur. Eins og þetta gekk vel í fyrra. Ég var búin að suða og suða og suða í vinum og vandamönnum þegar Gissur bróðir sá loks aumur á mér og hengdi þessa fj.... seríu upp fyrir mig.
Það er örugglega af því að ég bý á Jólavöllum sem mér gengur ekkert að selja húsið. Fólk hræðist allar þessar jólaseríur og jólasveinana sem klifra í öllum ljósastaurunum í desember, janúar, febrúar og mars. Einn þeirra er alveg upp við húsið mitt.
Fyrstu jólin okkar hérna þá var búið að hengja á og við húsið ríflega tvöfalt magn af ljósum miðað við það sem við vorum vön. Þegar ég bar það undir Bigga granna minn hvort þetta væri ekki bara gott, þá sagði hann "Jú, þetta er fínt hjá byrjanda".
Það er samt gott að búa á Jólavöllum.