19 október 2006

Okkar ástkæra og ylhýra

Það er vandmeðfarið blessað móðurmálið.
Ég er alltaf að fá auglýsingabæklinga í póstinum. Oftast flokka ég það strax hvað af póstinum ég tek með heim af pósthúsinu og hvað ekki. Auglýsingabæklingarnir verða yfirleitt eftir.
En af því að ég er í aðhaldsverkefninu Rannveig lætur eitthvað á móti sér þá hef ég einhverja ólýsanlega þörf fyrir að lesa auglýsingabækinga alveg spjaldanna á milli - nema Svenson, læt fyrrum barnakennara á Hallormsstað um að lesa hann.
Þetta gæti verið tilkomið af því að með því að lesa bæklingana vel og vandlega og láta mig langa í eitthvað þá hef ég það á tilfinningunni að átakið gangi betur með því að láta þetta allt, eða næstum allt, á móti mér.
Í dag fékk ég blað frá Intersport. Þar eru auglýstar "mjög góðar buxur á dömur úr teygjanlegu efni" - þetta gæti hentað mér - ég er úr mjög teygjanlegu efni. Eftir að ég hætti að reykja þyngdist ég um 8 kg án þess að húðin finndi fyrir því og nú í danska hef ég losnað við 5 til 6 kg.
Svo eru auglýstir "mjög góðir æfingaskór fyrir dömur og herra úr leðri". Ooojjjj bara. Ég hef aðeins verið að spjalla um það við hann þarna í efra hvort hann ætti á lausu draumaprins handa mér, einhvern sem væri ekki mjög upptekinn í öðrum verkefnum (þetta er ekki sos neyðarkall). Ég bara vona að ef hann verður við ósk minni að hann sendi mér einhvern þakinn skinni en ekki leðri. Mig langar ekkert í einhvern sem búið er að súta.
En svo er það rúsínan í pylsuendanum. Það eru æfingahjól með segli. Þetta er náttúrulega toppurinn - ef ég er löt en neyðist til að hjóla þá bara dreg ég seglið upp og hjóla beggja skauta byr. Gæti kannski orðið hausverkur að komast heim aftur.

|