13 nóvember 2006

Prófkjör

Ég hef orðið mjög litla trú á prófkjöri.
Mér þykir með eindæmum þetta prófkjör Samfylkingarinnar og svo skiptir hvert atkvæði ekki miklu þegar kjörkassi með 87 atkvæðum týnist og það gerir ekkert til þótt þau atkvæði hafi ekki verið með. Þetta virðist hafa verið svona skemmtilegt þversnið af töldum atkvæðum.
Það sem gerir samt útslagið er að Árni Johnsen skuli aftur vera á leið inn á þing.
Ég gef ekki mikið fyrir þetta jarm um að hann sé búinn að greiða skuld sína við samfélagið. Það er að vísu rétt að hann var tekinn úr umferð í tvö ár, en mér vitanlega hefur maðurinn aldrei sýnt svo mikið sem vott af iðrun vegna gjörða sinna. Meðan hann sér ekki neitt rangt við það sem hann gerði er hann í mínum huga alveg jafn siðblindur og daginn sem hann var handtekinn. Það hefur ekkert breyst síðan þá.
Honum fannst hann ekki hafa gert neitt af sér þegar hann mætti í dóm og ég hef hvergi séð haft eftir honum að það hafi kviknað á perunni hjá honum á Kvíabryggju.
Afsakiði en kannski hefur eitthvað farið framhjá mér.
Þannig að kosningabaráttan í vor verður á þann veg að Samfylkingarmenn þurfa að svara fyrir hvers vegna konur eiga ekki upp á pallborðið í flokknum og Sjálfstæðismenn þurfa að svara fyrir hvað í ósköpunum þeir ætli að gera við Árna. Frjálslyndir mála sig út í horn í þjóðarrembu.
Vinstri grænir virðast enn sem komið er geta einbeitt sér að einhverjum málefnum.
Kannski að þetta verði Framsókn til lífs.

|