11 nóvember 2006

Að höggva í eldinn

Hann er ansi napur í dag.
Þurrir vetrarvindar blása ofan af hálendinu en sem betur fer er Dyngjufjallasandurinn frosinn og fjörumyndun er ekki hafin í Hálslóni, annars væri ólíft á Héraði í dag.
Mér fannst hann vera að lygna svo ég brá mér út fyrir hús að höggva í eldinn. Lét mig dreyma um notalegt kvöld, eld í arni og skítakulda úti. Við Kolgríma og helgargestirnir okkar Garpur og Berglind Rós í huggulegheitum á laugardagskvöldi.
Viðarhöggið fórst mér álíka vel úr hendi og Sigurði Blöndal forðum daga, þegar hann var skógarvörður á Hallormsstað og var að kenna strákunum að högga með öxi á svo öruggan hátt að þeir myndu ekki slasa sig. Hann hjó upp undir ilina á sér og hefur ekki nokkrum manni tekist að leika þetta eftir.
Mér tókst hins vegar að troða flís undir nöglina á þumalfingri vinstri handar. Það er lán í óláni, eins og ég fann út fyrir rúmum tuttugu árum, að þessi fingur er óþarfur við vélritunarvinnu, sá eini sem hefur engu hlutverki að gegna á lyklaborðinu. Þetta uppgötvaði ég eftir að ég sneiddi væna flís úr fingri mínum í rabbarbaragarðinum á Hafursá.

|