24 nóvember 2006

Flugdólgar

Ég kann bara eitt ráð varðandi flugdólga.
Fleygja þeim út svo hægt sé að fljúga í friði.
Hér á árum áður var ég svo hræðilega flughrædd að ég var með magapínu í marga daga fyrir flug. Ég var meira að segja svo hrædd að ég átti það til að missa matarlystina og það vita þeir sem þekkja mig að gerist ekki nema ég standi við dauðans dyr. Ég var sko ekki að þvælast að óþörfu milli landshluta.
Þegar við bjuggum enn fyrir sunnan og maður var að fara heim í frí til pabba og mömmu þá varð ég að gæta þess að kaupa nóg af nammi og nýju dóti til að halda frumburðinum uppteknum þessa klukkustund sem flug milli Reykjavíkur og Egilsstaða tekur því ég var gersamlega ófær um að hugsa um þessa elsku á leiðinni. Það voru alltaf jólin hjá Gunnhildi þegar við lögðum af stað í flug en ég var græn í framan af skelfingu.
Einu sinni vorum við að fara hér á milli og þá sátu tveir blindfullir karlar hinum megin við ganginn, þeir reyktu og drukku alla leiðina og ég var skíthrædd um að þeir myndu kveikja í vélinni, ekki hitta með sígaretturnar í þessa obbolitlu öskubakka.
Til að gera mér ferðina enn ánægjulegri þá hélst athygli Gunnhildar ekki við nammið og nýja dótið nema helminginn af leiðinni og þá vildi mín fá að skoða sig um og kíkja hvar klósettið væri. Ég bað hana að vera nú góða og sitja kjurra því ég vildi bara hafa hana hjá mér. Þá lifnaði yfir þessum tveimur byttum og þeir byrjuðu að segja við mig að ég væri leiðinleg kerling að leyfa barninu ekki að valsa um vélina og að það væri svo gaman fyrir krakkann að skoða sig um.
Já, það er sem ég segi, flugdólgum á að fleygja út svo við hin höfum frið á flugi.

|