Svartir jólasveinar
Tíminn æðri áfram á Jólavöllum.
Ég þurfti að fjárfesta í nokkrum jólaseríum. Það kemur m.a. til af hreinræktuðum slóðaskap og líka því að ég hef verið að æfa mig í karlmannaverkum.
Ég hef haft skreytt reiðhjól í garðinum undanfarin ár og í fyrra dundaði ég mér við að setja nýjar seríur á hjólið og vandaði mig þessi ósköp við að raða perunum á gripinn og festi allt voða vel. Hjólið dró að sér athygli vegfarenda með svona fínum rauðum jólaljósum á. Svo stóð það þarna langt fram yfir jólin og stendur þarna enn, nema það að í sumar þegar ég var að æfa mig að slá garðinn - sem sagt fór í karlmannsverkin, þá lenti snúran af jólaseríunni í slátturvélinni, þannig að nú stendur fallega skreytt jólahjól hér utan við húsið en það er ekki hægt að kveikja á því.
Í gær var ég á hárgreiðslustofunni og þá komst aðeins til tals þessi nýja jólatíska, svart jólaskraut. Og þar sem ég er nú búin að vera að vandræðast yfir hvernig ég á að koma seríunni sem ég asnaðist til að taka niður í ágúst, aftur upp í þakskeggið þá bauðst Sigga lögga til að príla upp í stigann fyrir mig. Ég fattaði það í gær að auðvitað bið ég Siggu að mæta í löggubúningnum, hún verður þá alveg eins og nýmóðins jólasveinn. Og hjólið stendur þarna með svörtum jólaljósum.
Hvað er maður alltaf að væla - málin leysast á endanum farsællega.