11 desember 2006

Hinn sanni andi jólanna

Ég er orðin svo áttavilt eitthvað.
Í Kaupfélaginu mínu er til sölu bók sem heitir Biblía fallega fólksins. Ég hef ekki þorað að skoða hana, það gæti misskilist og fólk færi að stinga saman nefjum um hvort ég ætti ekki spegil - þetta er ekki bók handa mér. Ef ég myndi gefa einhverju þessa bók í jólagjöf gæti það misskilist. Gjafaþegi gæti haldið að ég væri með einhverjar meiningar í sinn garð.
Svo er það Biblían á 100 mínútum, ég hef aðeins verið að spá í að fá mér þá bók, minnug þess þegar ég var 10 ára og ákvað að lesa biblíuna. Ég hef alltaf reynt að vanda mig við það sem ég tek mér fyrir hendur svo ég byrjaði auðvitað á fyrstu blaðsíðunni og þeir sem hafa lesið biblíuna vita hvað það er áhugaverð lesning. Ég komst svo aldrei lengra.
En það sem ruglar mig mest í þessum jólahugleiðingum er fyrirsögn á mbl.is í dag. Markmiðið á að vera að útrýma fátækum börnum. Það er verið að tala um íslensk börn. Ég hef lesið um ógeðslegar aðfarir lögreglunnar í Ríó þegar fátæk börn eru annars vegar, en á Íslandi, nei takk, við hljótum að hafa efni á að leyfa öllum börnum að vaxa og dafna.

|