10 desember 2006

Annar sunnudagur í aðventu

Hér er allt frekar rólegt.
Nágrannarnir keppast við að hengja upp jólaljósin. Ég bíð eftir að löggan komi og aðstoði mig við það. Annars eru Rarik-menn í einhverju stuði og eru að fikta í rafmagninu í dag, bærinn var almyrkvaður áðan.
Þegar ég var lítil var ein vinkona mín sem öfundaði mig af því að eiga fjóra bræður, ég öfundaði hana af að eiga ekki nema einn. Enn meira öfundaði ég skólasystur mína sem var einbirni.
Ég er löngu hætt að öfunda þær, sérstaklega einbirnið. Það er oft afskaplega gott að eiga fjóra bræður og eina systur. T.d. í dag, þá kom Þórhallur bróðir minn og sagaði nokkrar greinar af trénu sem ég er vön að setja jólaseríuna í, nú verður það verk mun þægilegra og serían á eftir að njóta sín betur.
Þórhallur var á hraðferð í gegnum Egilsstaði, hringdi í mig þegar hann nálgaðist götuna mína, sagði mér að henda framlengingarsnúrunni út að trénu, renndi svo í hlað rétt um það bil sem ég lauk við þetta, hentist út með keðjusögina á lofti, stakk henni í samband og sneið sex greinar af trénu áður en mér tókst að stoppa hann og segja honum að þetta væri orðið fínt. Ég hafði nú ekki hugsað mér að hafa bara súlu þarna í garðshorninu. Svo kubbaði hann greinarnar niður í snarhasti þannig nú á ég arinvið til jólanna og svo var hann bara horfinn og ég hef hvorki heyrt hann eða séð aftur.
Anna systir verður fimmtug á morgun, Nunna Mæja vinkona hennar er fimmtug í dag. Þær fóru saman til Kaupmannahafnar til að verða fimmtugar í kyrrþey. Ekkert kaffi og engar kökur handa mér, engar kökur og ekkert sælgæti, bara eins og hjá Karíusi og Baktusi.
En ég óska þeim til hamingju og vona að þær skemmti sér vel og vanlega í Köben og geri allt sem ég myndi gera - líka það sem ég myndi alls ekki gera.

|