12 desember 2006

Vanþakklæti

Ég veit maður á að vera þakklátur fyrir gjafir sem manni berast.
En ég veit ekki alveg hvernig ég á að bregðast við jólagjöfinni sem bankinn minn sendi mér.
Þetta er einhvers konar taupoki - auðvitað úr svörtu efni eins og allt er núna fyrir jólin. Með honum fylgja einhverjar leiðbeiningar um að það megi geyma í honum ávexti eða brauð.
Ég held að brauð geymist ekki vel í þessu tauíláti og ég á góða ávaxtakörfu svo ég hef verið að reyna að sjá út eitthvað annað notagildi.
Við vorum að skoða þetta í vinnunni og það komu upp tillögur eins og að setja þetta yfir brauðristina ef maður vill ekki að hún sjáist. Mér finnst svört þúfa á borðinu bara ekkert fallegri en brauðristin mín auk þess sem þetta gæti bara skapað eldhættu. Það má setja þetta yfir teketil til að halda honum heitum. Humm, ég drekk nú ekki mikið te.
Ég prufaði að setja þetta á hausinn ef ske kynni að það mætti nota þetta sem höfuðfat, en þá leit ég út eins og kötturinn með höttinn og þetta var allt of stórt á hausinn á mér.
Af því að ég er nú búin að vera í viðskiptum við þennan banka í 45 ár þá vildi ég nú reyna að sýna gjöfinni frá þeim einhvern sóma án þess að heimilið mitt liti bjánalega út svo ég hef fundið það út að þetta nýtist mjög vel undir hárfroðu, hársprey og annað hárdót INNI í skáp sem ég get lokað.
En Kb-banki ég þakka samt fyrir mig.

|