21 janúar 2007

Þorrinn

Þá er þorrinn genginn í garð.
Þorrablót okkar hér á Egilsstöðum var haldið á bóndadaginn og tókst afar vel eða það erum við í nefndinni alla vega sammála um.
Það var heldur ekki annað að sjá og heyra en að allir blótsgestir væru hæstánægðir.
Umgjörðin voru sögurnar um Kardimommubæinn, Dýrin í Hálsaskógi og Karíus og Baktus. Bæði skreytingarnar og skemmtiatriðin voru sett í þann ramma.
Síðustu vikur hefur hvert kvöld og allar helgar farið í undirbúning og á bóndadaginn sjálfan vorum við mætt í íþróttahúsið kl. 9 um morguninn og við yfirgáfum það kl. 7 morguninn eftir og þá var búið að taka allt saman og þrífa húsið svo menn gætu aftur farið að æfa þar íþróttir.
Þetta hefur verið einstakur tími og þessi hópur hefur verið einstaklega jákvæður og samtaka í öllu sem gera þurfti til að koma þessu þorrablóti á koppinn.
Mér líður álíka í dag og mér leið hér fyrir margt löngu þegar ég sat í kvöldsólinni á Illakambi að lokinni göngu frá Snæfelli yfir í Lón. Við vorum 12 sama og höfðum varið saman viku á fjöllum án þess að heyra eða sjá nokkrar aðrar manneskjur. Þegar við sátum á Illakambi og biðum þess að verða sótt þá fylltist ég söknuði við tilhugsina um að kannski ætti ég aldrei eftir að hitta suma úr hópnum aftur.
Ég á nú eftir að hitta þorrablótsnefndina aftur sem betur fer, við eigum í það minnsta eftir að halda litla blótið og þá verður fjör. Nú og svo vona ég að enginn úr nefndinni fari að asnast til að flytja héðan.

|