07 janúar 2007

Jólasukki lokið

Jæja, þá eru jólin á enda runnin.
Við Kolgríma erum búnar að taka niður jólaskrautið og nú stendur þetta fallega tré nakið í stofunni. Þetta er sérstaklega fallegt tré, það er þakið könglum sem uxu á það í skóginum. Toppurinn er hjúpaður kóngulóarvef sem lítil kónguló sem fylgdi trénu úr Brekkugerðisskógi hefur dundað sér við að spinna um jólin. Þessi fíngerði vefnaður er miklu fallegra en englahár og annað sem jólatré eru sveipuð. Synd að þurfa að henda þessu út.
Þau undur og stórmerki áttu sér stað í lífi mínu á föstudaginn að ég hafði mig í íþróttahúsið. Steini sundlaugarvörður kom alveg fram að útidyrum til að heilsa mér, bjóða mig sérstaklega velkomna og kynna fyrir mér hvaða starfsemi færi fram í þessu húsi.
Ég fór í þreksalinn og tók vel á. Þetta var svo sterk upplifun að ég hef ekki svo mikið sem gangsett bílinn í dag eða gær, bara ferðast um á hjólinu. Reyndar kannski heldur kalt úti til að vera að hjóla, en ég var komin langleiðina niður í kaupfélag þegar ég gerði mér það ljóst.
Ástæða þess hversu langt er liðið frá síðasta bloggi eru tæknileg vandræði hjá blogger.com en ekki leti í mér. Ekki einu sinni sú staðreynd að ég er í þorrablótsnefnd hefur komið í veg fyrir að ég hef reynt að blogga en ég hef ekki náð sambandi við þennan blogger.com fyrr en núna.

|