21 september 2008

Áfall

Það munaði minnstu að ég hefði þurft áfallahjálp í gær.
Kolgríma fór að heiman um það leyti sem við Maggi lögðum af stað í Spánarferðina í fyrrakvöld. Á leiðinni til Reykjavíkur var ég í sambandi við Siggu Bú sem er kattagæslukona um helgina og þó komið væri langt fram á kvöld bólaði ekkert á Kolgrímu.
Mér leist ekki á blikuna í gærmorgun þegar það kom í ljós að kisa var ekki enn komin heim. Hún hefur aldrei verið næturlangt að heiman.
Svo leið allur gærdagurinn án þess að Kolgríma léti sjá sig og ég var farin að kynna mér flug heim aftur.
En svo kom þessi elska loksins heim upp úr kvöldmat í gær. Glorsoltin. Sigga gaf henni stóran skammt af nammi og mat og ég get núna róleg haldið áfram ferð minni til Spánar, en það er brottför frá Keflavík í hádeginu á morgun.
Í gærkvöldi var veisla hér í Goðaborgum. Hjónaleysin Ragna og Funi, sonur Magga, komu og borðuðu með okkur Magga, Önnu Berglind og Nonna. Í forrétt var einn sá allra besti humar sem ég hef smakkað en Nonni aflaði hans. Svo var hreindýrsvöðvi sem við komum með að austan, lerkisveppasósa o.fl. Algert gúrme.
Loks var farið að sjá Fló á skinni og allir skemmtu sér vel.
Í dag er það Kolaportið, ég hef ekki komið þangað síðan í fyrra alla vega. Ég lenti á snyrtivörumarkað í Debenhams í gær svo nú þarf ég varla að líta á nokkurn hlut í Fríhöfninni á morgun.
En ég upplifiði nokkuð merkilegt í gær. Ég fór í Kringluna, alveg ótilhöfð, engin andlitsmálning og ég í gallabuxum og íþróttaskóm. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer í Kringluna og skoða mig um alveg óáreitt. Mér var ekki einu sinni boðinn góður dagur í búðum. Venjulega, þegar ég mæti í svörtum buxum eða pilsi, fínum skóm og kápu, þá er tekið á móti mér með brosi og mér boðin þjónusta í verslunum. En í gær var mér ekki boðin nokkur einasta þjónusta í Kringlunni.
Athyglisverð upplifun.

|