20 október 2008

Það þarf sterk bein til að þola góða daga

og bein í nefið til að þrauk þá sem á eftir koma.
Ég er að reyna að átta mig á þessu fárviðri sem geysar á fjármálamarkaðinum.
Það er eitt sem ég fæ bara alls ekki til að ganga upp í hausnum á mér. Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að úr því að breskir sparifjáreigendur treystu betur stuttbuxnadrengjum frá Íslandi en gamalgrónum breskum bönkum fyrir pundunum sínum, hvernig er hægt að fá það út að hversdagslegir Jónar og Gunnur á Íslandi eigi að súpa seyðið af því að Bretar tapi þessum pundum sínum?
Af hverju eiga almennir Íslendingar að missa eigur sínar og tapa lífeyrinum sínum? Af því að Bretar ætluðu að ávaxta sitt pund í ótraustum bönkum. Bönkum sem almenningur á Íslandi hafði örugglega enga hugmynd um að væru svona risavaxnir, sem almenningur á Íslandi hefði örugglega aldrei vilja ganga í ábyrgð fyrir ef spurt hefði verið.
Hvernig er hægt að láta almenna launþega vera ábyrga fyrir svona starfsemi? Einu sinni tíðkaðist að menn skrifuðu upp á ábyrgðir á lánum og ég minnist þess ekki að ég hafi persónulega skrifað upp á það að ég væri ábyrgðarmaður út af einhverjum bankaviðskiptum í Bretlandi.
Pápi minn sagði við mig þegar ég varð fjárráða að ég ætti aldrei að skrifa upp á skuldbindingar nema að ég væri borgunarmanneskja fyrir því sem um væri samið og ekki skrifa upp á fyrir aðra en þá sem ég sætti mig við að borga fyrir. Ég skyldi gera mér grein fyrir að skuldin gæti fallið á mig.
Ég hef alltaf haft þessi góðu ráð föður míns að leiðarljósi og ég er alveg með það á hreinu að ég hef ekki skrifað upp á þessar skuldbindingar bankanna.
Ég get bara engan veginn séð neitt réttlæti í þessu máli.
Svo hef ég megna óbeit á þessum Gordon Brown. Ég vona að það verði farið í þessi málaferli og ég vona að Íslendingar vinni málið.

|