Sunnudagsmorgun í Skógarkoti
Ef allt væri eins og það var væri ég að hafa til fínan morgunmat.
Beikon og egg og alls konar góðgæti sem hæfir sunnudagsmorgni í Skógarkoti.
En nú er allt breytt og breskur morgunmatur hefur verið tekinn af matseðlinum. Nú verður borið á borð heimabakað brauð, íslenskur ostur, íslenskt smjör, kaffi frá Brasilíu og ávextir frá heitari löndum en Bretlandi.
Ég var að lesa bloggið hennar Önnu Kristjáns. Þar eru vangaveltur sem eru mér að skapi.
En varðandi efnahagsástandið þá er það mín skoðun að það eru stjórnvöld sem hafa komið okkur í þessi vandræði. Þau brugðust okkur algerlega í öllu fjármálaeftirliti, stjórnin svaf í klettagjá og þjóðin flaut með sofandi stjórn að feigðarósi.
Það er ekki hægt að ætlast til þess að heimilin í landinu axli ábyrgðina á þessu ástandi. Að fólk missi húsnæðið meðan það á varla fyrir salti í grautinn. Nú þegar ljóst er að verðbólgan á eftir að æða upp úr öllu þá finnst mér að afnema eigi hina illræmdu verðtryggingu.
Fyrst eru menn kvattir til að taka öll heimsins lán og svo fá þeir margfaldan bakreikning. Kaupa allan heimsins óþarfa, ekkert út og fyrsta afborgun einhvern tíma í fjarlægri framtíð. Hvað með þá sem notuðu þetta ótrúlega tilboð um 90% íbúðalán? Svo ekki sé nú talað um þessi grimmu bílalán sem minna mest á sögur um að selja Skrattanum sál sína.
Úr því að bankarnir fengu eftirlitslaust að valsa svona út um víðan völl þá verða þeir sem áttu að hafa eftirlit með málunum að finna aðra lausn en að svipta hinn almenna Íslending húsnæðinu.
Ég þakka nú Guði fyrir að litlu bankadrengirnir höfuð það ekki í geng að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef.