12 október 2008

Þjófnaður

Stundum botnar maður ekkert í hlutunum.
Eins og þessa dagana. Ég skil þetta ástand í þjóðfélaginu ekki. Eða öllu heldur ég skil ekki hvernig það gat gerst að bankarnir fengu að byggja þessar spilaborgir þegar þjóðin á alls konar hagfræðinga, peningamálasérfræðinga, Seðlabanka, fjármálaeftirlit og Guð má vita hvað við vorum með margar tegundir af sérfræðingum, lærðum og leikum, á súperdúperlaunum við að koma öllu í kalda kol hjá okkur. Af hverju sáu þessir spekúlantar ekki í hvað stefndi? Eða öllu heldur, af hverju var ekkert gert þegar skýrslur fóru að berast um að allt stefndi í óefni?
Jæja, þetta er allt búið og gert og víst til lítils að spyrja af hverju, nema kannski til að læra af því.
Ef maður með nælonsokk yfir hausnum labbar sér inn í banka og skipar gjaldkeranum með illu eða góðu að fylla skjattann hans af peningaseðlum, þá sjá allir hver ásetningur hans er og það vefst ekki fyrir ákæruvaldinu að heimfæra slíka hegðun undir almenn hegningarlög.
Ef aftur á móti maður kemur fínt uppdubbaður í rándýrum fötum inn í sama banka, labbar sér inn á fína skrifstofu sína, pantar far á Saga Class út í heim (á kostnað bankans) - ef það býður hans ekki bara einkaþota út á velli. Leikur sér að eignum bankans (sem einu sinni var þjóðareign) byggir upp alls konar skýjaborgir í útlöndum fyrir peningana sem grandvarar ömmur og afar hafa lagt til hliðar af mikilli sparsemi. Skammtar sjálfum sér margföld laun hvers vinnandi manns í landinu og við horfum bara aðgerðarlaus á. Vonumst samt eftir því að okkur verði líka boðið upp í dansinum í kringum gullkálfinn og reynum að taka nokkur spor með ef færi gefst. Vonumst eftir því að kokkurinn verði spilaður svo allir komist út á gólf, það eru ekki dömufrí í þessum dansi.
Hinn grandvari hversdagslegi Íslendingur spyr sjálfan sig hvort þessi dans í kringum gullkálfinn sé ekki glapræði en landsfeðurnir klappa bankamanninum á bakið og greiða götu hans í útlöndum.
Svo finnst ekki nein grein í almennum hegningarlögum sem hægt er að heimfæra þess hegðun undir. Enda ekki von, hvernig áttu menn að fatta það 1940 að það væri þörf á slíkri lagagrein.
En ég verð að segja að mér finnst að ríkissaksóknari ætti að endurskoða þá ákvörðun sína að heimila að farið verði í að rannsaka einhverja þætti Hafskipsmálins að ósk Björgúlfs. Mér finnst ekki brýnasta þörf á því núna að verja opinberu féi í að hreinsa mannorð manns sem var einn af þeim sem svipti Ísland og Íslendinga ærunni.

|