05 október 2008

Sunnudagsmorgun

Veðrið er yndislegt á Héraði á þessum sunnudagsmorgni.
Venjulega vakna ég upp á sunnudagsmorgnum og hugsa um hvað ég eigi að taka mér fyrir hendur á slíkum drottins degi.
Í dag er ég reyndar búin að ráðstafa deginum, en þar fyrir utan er ég að brjóta heilann um efnahagsástandið. Þegar efnahagsástandið er skriðið upp í ból til mín á sunnudagsmorgni er eitthvað meira en lítið að gerast.
Hvað skyldi verða um lífeyrissparnaðinn okkar? Ég hef frá upphafi verið í viðbótarlífeyrissjóðssparnaði og séð fram á góða daga í ellinni, en nú fer ég að efast um að hann verði tiltækur þegar ég þarf á honum að halda.
Svo er ég að brjóta heilann um hvernig ég get dregið saman seglin á þessum síðustu og verstu tímum.
Þá horfi ég fyrst á bílinn. Það liggur beinast við að draga úr notkun á Súbba. Það er líka bara holt og gott að ferðast um á reiðskjótum postulanna.
Svo kemur sterklega til greina að taka slátur. Það er mikil búbót að eiga slátur í frystinum (og muna eftir að borða það).
Ætli ég taki svo ekki upp matseðlinn sem við Finnur höfðum á námsárunum, hrísgrjónagrautur í flest mál.
Alla vega held ég að það eitt að skipuleggja matarinnkaupin í það minnsta viku fram í tímann skili miklum sparnaði.
Ég ætla að hugsa um fleiri sparnaðarleiðir í dag meðan ég dunda mér í verkefnum dagsins.

|