Komin heim
Þá er Spánardýrðin á enda og við erum komin heim.
Þetta var alveg yndisleg ferð þrátt fyrir að ég steyptist út í sólar- eða rakaofnæmi eins og á Tenerife í fyrra.
Ég var bara búin að gleyma hvernig fór fyrir mér í fyrra en sem betur fer var ég með ofnæmistöflur með mér - þær dugðu samt ekki nógu vel.
Maggi var spældur yfir því að það rigndi í tvo og hálfan dag, en mér var slétt sama. Ég hafði bara gaman af að horfa á öldurnar.
Ferðin til Tanger í Marokkó var mikil upplifun. Ég sá svo margt á stuttum tíma að ég þarf tíma til að hugsa um það. Við fórum um mjög þröngar götur í gömlu hverfi og vorum svo allt í einu komin inn á framandi matsölustað þar sem beið okkar veisla. Þríréttuð marokkósk máltíð, hljóðfæraleikur og dans.
Síðan var ferðinni haldið áfram um þröngar og skítugar götur og allt í einu vorum við stödd í þvílíku verslunarhúsnæði að ég hefði þurft nokkra daga til að fá að skoða mig um. Þarna voru okkur sýndar gólfmottur af ýmsum stærðum og gerðum og útskýrt fyrir okkur hvernig þær eru unnar. Hver um sig er listaverk og það er mikið handverk sem liggur í hverri og einni mottu. Síðan skoðaði ég kistla úr sítrusviði, stóra gólfvasa, skartgripi og alls konar fallega hluti. Það var svo mikil veisla fyrir augun að koma þarna að ég gat ekki valið mér neitt til að kaupa.
Götusalar eltu okkur á röndum og voru mjög ágengir. Ég hefði vilja kaupa eitthvað af þeim en það var ekki nokkur leið því þá hefði ég misst af hópnum og ég hefði aldrei fundið hann aftur í þessum þröngu og krókóttu götum.
Síðasti viðkomustaður var búð sem seldi krydd og alls konar jurtir sem lækna alla kvilla. Þar keypti ég saffran og fleiri krydd. Starfsmaður í jurtabúðinni hélt líflega og skemmtilega kynningu fyrir okkur á broti af því sem boðið var upp á í þessari óvenjulegu búð.
Það er himin og haf sem skilur að þetta hverfi sem við heimsóttum í Tanger og lúxushótelið sem við dvöldum á í Torremolínos.
Þetta var yndisleg ferð. Hótelið flott með góðum sundlaugargarði, maturinn góður og ljúft að fá sér kvöldgöngu meðfram ströndinni.
Ferðin heim á Hérað gekk vel þó það væri smá snjóþekja á Öxi.
Það er gott að vera komin heim og gaman að á meðan ég var í burtu var steypt gangstétt í götunni minni þannig að aðkoman að Skógarkoti hefur batnað.
Svo er náttúrulega toppurinn að hitta þær Klófríði og Kolgrímu og knúsa þær.