Stofufangelsi
Kolgríma og Klófríður eru í stofufangelsi.
Það kemur ekki til af góðu. Það er verið að steypa stétt hér í götunni og þegar ég var að fara í vinnuna eftir hádegismatinn þá heyrði ég hróp og köll. Ég gaf því engan gaum, þetta voru bara karlarnir í steypuvinnunni og ég hélt að þeir væru í samskiptum innbyrgðis.
En aldeilis ekki, einn stökk fram og stoppaði mig þegar ég var að aka frá húsinu. Hann spurði hvort kötturinn minn væri úti. Ég sagði að önnur kisan væri nýlega farin út að leika sér. Þá krossbölvaði hann og sagði að kötturinn væri búinn að valda stórtjóni með því að valsa um í blautri steypunni.
Ég fór að skoða verksummerkin og það fór ekki á milli mála, það hafði köttur verið að vaða þarna í rennblautri steypunni. Aumingja kötturinn.
Ég reyndi að kalla en Kolgríma var komin langt út í skóg, eða lét sem hún heyrði ekki í mér.
Þegar ég kom heim síðdegis beið hún eftir mér og var dauðfegin að komast inn, en það var steypuslóðin eftir hana inn allt parketið svo það fór ekki á milli mála hver skemmdarvargurinn var.
Klófríður fær ekkert að fara út og hún er ekki par hrifin af því. En svona eru laun heimsins, við höfum nú fengið að kynnast því undanfarið. Einn brýtur af sér og annar fær að greiða fyrir það.
En þegar ég fór út að hjóla í blíðunni hitti ég karlana aftur, þar sem þeir eru að steypa hér innst í götunni. Ég sagði þeim að kisurnar væru báðar lokaðar inni. Þeir sögðu að það væri eins gott, þær yrðu snúnar úr hálsliðnum ef þær létu sjá sig því þeir hefðu ekki haft undan að laga skemmdir eftir kisu mína í dag.
Þeir tóku það ekki einu sinni í mál að trúa því að það væru nú fleiri kettir hér í hverfinu. Nei, það komu ekki aðrir kettir til greina.
Jæja, ekki ætla ég að fullyrða það. Kolgríma er vel vís til að hafa spásserað endan á milli í götunni og að hafa haft áhuga á að skoðað þessar framkvæmdir.