13 október 2008

Fóruð þið til berja í haust?

Þessi setning hefur sérstaka merkingu á mínu heimili.
Þannig var að systir hennar tengdamömmu var að borða með okkur á Strönd ein jólin. Eitthvað fannst henni óþægilegt að hlusta á okkur Finn pexa um eitthvað ómerkilegt atriði svo hún segir svona upp úr eins manns hljóði "Fórst þú til berja í haust Rannveig?"
Upp frá því var þessi setning notuð hjá okkur ef umræðan fór að verða óþægileg og einhver vildi skipta snöggt um umræðuefni.
Þess vegna segi ég "Íslendingar, fóruð þið til berja í haust?"
Málið er nefnilega að mér leiðist að heyra menn heimta hefndir núna. Við höfum öðrum hnöppum að hneppa. Við þurfum að standa saman og byggja kjark og þor hvert hjá öðru.
Sérstaklega þykir mér leiðinlegt að lesa það sem Ögmundur Jónasson lætur frá sér fara, mér þykir það oft bera vott um barnalega hefnigirni og öfund.
Í sumar var eitthvað verið að ræða um sukk og svínarí hjá bönkunum. Ögmundur kom með þá snjöllu hugmynd að skikka hæstráðendur í bönkum til að selja glæsijeppana sína.
Halló, hver átti að kaupa þá? Og hvaða lausn var fólgin í því að selja þessa jeppa? Værum við kannski betur stödd núna?
Þegar Geir stóð eins og klettur alla síðustu viku þegar kerfið gliðnaði í sundur og himnarnir hrundu yfir okkur, þá sé ég á netinu að Ögmundur segir að það þurfi að flýta kosningum.
Halló, er ekki nær að pólitíkusar snúi bökum saman og finni leið út úr kreppunni heldur en að þeir fari að ferðast um landið og rífast um atkvæði.
Nei, ég segi nú bara "Fórstu til berja í haust Ögmundur?"

|