04 nóvember 2005

Óvissuferð

Komin heim úr mikilli ævintýraferð.
Fór suður á Hornafjörð í rauðabítið í gær og var komin í Freysnes fyrir hádegi. Þar beið ljúffeng máltíð og síðan var haldið niður á Skeiðarársand undir leiðsögn þjóðgarðsvarðar. Þetta var hin mesta skemmtun.
Var á Höfn í dag og hitti fullt af skemmtilegu og áhugaverðu fólki. M.a. mann sem hefur það sjaldgæfa starfsheiti gullleitarmaður. Mér finnst felast svo ótrúleg bjartsýni í að vera gullleitarmaður á Íslandi að maðurinn ætti að fá bjartsýnisverðlaunin. Það hljóta að vera frekar stopular launagreiðslur í þessum geira.
Heyrði margar góðar sögur sem því miður er ekki hægt að hafa eftir á veraldarvefnum, enda verður Lata Grétar að gæta fyllstu siðsemi.
Að loknum vinnudegi fórum við nokkrar saman að stelpast í búðunum. Litum aðeins í mollið og fórum í uppáhalds búðina mína utan Héraðs, en það er Lónið á Höfn. Mæli eindregið með að menn kíki þangað ef þeir eiga leið um Höfn. Í Lóninu dressuðum við okkur allar upp og ég keypti mér m.a. nýtt pils. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema af því að ég hef ekki keypt pils í mörg ár og svo keypti ég númer sem ég hef ekki keypt í 6 ár. Ég var því að vonum kát á leiðinni heim.
Að vísu skyggði það töluvert á heimferðina að ég varð lítilli mús að bana. Litla greyinu entist ekki aldur til að læra umferðarreglurnar.
Fór Fáskrúðsfjarðargöngnin í fyrsta skipti. Þetta er virkilega flott mannvirki. Manni opnast reynar ekki eins stórfenglegt útsýni eins og þegar ekið er suður úr Almannaskarðsgöngunum, enda ekki hægt að toppa þá himnaríkisfegurð. Þetta er svo sem að hluta til ágisku því það var ekki orðið mjög bjart þegar ég kom suður úr Fáskrúðsfjarðargöngunum.
Kolgríma var bara kát yfir heimkomu minni. Hún var svo góð við mig að setja uppáhalds músina sína í töskuna mína þegar ég var að pakka niður í fyrrakvöld . Ég veit ekki alveg hvort hún hefur staðið í þeirri meiningu að hún væri líka að fara í ferðalag eða hvort hún vildi bara að mér leiddist ekki meðan ég væri að heiman. Það verður spennandi að vita hverju hún pakkar niður þegar ég fer innan tíðar til Kaupmannahafnar. Það er nú bara alveg að koma að því.

|