16 janúar 2006

Guðrún frá Lundi

Byrjað aftur að lesa á spítalanum í dag.
Það var virkilega notalegt að koma aftur og hitta vini mína á spítalanum. Ég fékk hlýjar og góðar móttökur bæði hjá sjúklingum og starfsfólki. Það hefur fjölgað í áheyrendahópnum og virtust allir vera sáttir við ég myndi lesa Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi. Það hafa samt aldrei eins margir forðað sér úr salnum meðan ég hef verið að lesa. Ég þurfti meira að segja að sækja hjálp fyrir einn sjúklinginn sem ekki gat forðað sér aðstoðarlaust. Svo voru náttúrulega nokkrir sem komust hvorki lönd né strönd og létu sig hafa það að hlusta á lesturinn til enda en sem betur fer voru flestir ánægðir. Obbolítið væmin saga, en allt í lagi. Bókin virðist öll vera einn kafli svo ég verð bara að hætta einhvers staðar í miðjum söguþræði.
En svo gerðust undur og stórmerki. Ég ákvað að kíkja í apótekið fyrst ég var nú hvort sem er þarna í nágrenninu - alltaf gaman að skoða snyrtidót og hrukkukrem. Reyndar þori ég ekki að kaupa mér hrukkukrem eftir að hrukkóttasta kona Íslandssögunnar reyndi að selja mér svoleiðis og sagði að árangurinn væri óviðjafnanlegur.
Ingibjörg apótekari fór að sýna mér alls konar fínerí sem ég gæti smurt á andlitið á mér fyrir þorrablótið svo það sæist nú sem allra, allra minnst af mér á þeirri samkomu. Nema hvað, hún seldi mér þennan líka fína varalit. Ég á svo sem nóg af varalitum, örugglega 10 stykki, en ég spæni líka heil ósköp upp af þeim á ári hverju - þó held ég að enginn minnist þess að hafa séð mig með varalit. Ástæðan er sú að ég set litinn á varirna og sleiki hann svo jafnóðum af, hann tollir aldrei nema í 2 mínútur. En þessi sem Ingibjörg seldi mér í dag er búinn að tolla á vörunum á mér í eina og hálfa klukkustund. Samt hef ég á þessum tíma fengið mér kók, farið og gert veðurathuganir (þ.e.a.s. farið út að reykja) og það sem er ótrúlegast, ég fór í bað. Kannski ekkert rosalega ótrúlegt að ég skyldi fara í bað en það sem er ótrúlegt er að það sér enn móta fyrir varalitnum. Eins gott að vanda sig og lita ekki útfyrir, það næst aldrei af. Þetta hlýtur að vera gömul málning úr Slippstöðinni - eitthvað sem ég verð að lokum að hreinsa af með terpentínu.

|