11 mars 2006

Nýir tímar

Ég rakst á góða fyrirsögn í Mogganum í gær:
"Það eru nýir tímar framundan". Guð hvað mér létti við að lesa þetta - hugsa sér ef það væru gamlir tímar framundan. Við ættum e.t.v. yfir höfði okkar svarta dauða eða stóru bólu en ekki fuglaflensuna. Ekki þar fyrir hún er örugglega ekkert skárri, við búum bara við betri kost en forfeður okkar. Eigum þess alla vega kost að fá að deyja í hreinum rúmum en ekki lúsugum fletum.
Þetta er örugglega fyrsta helgin á árinu sem ég hef ekki skipulagt neitt sérstakt. Engin mannamót, ekkert matarboð, ekkert sukk.
Þetta er ósköp notalegt, get gert bara það sem mér dettur í hug, hugað að öllu sem ég hef trassað. Kannski ég skúri í annað skiptið á árinu - ef ég verð í stuði til þess. Tek svolítið til hjá okkur Kolgrímu, ligg í leti, les í einhverjum af öllum þessum bókum sem liggja ólesnar á náttborðinu og hef það í einu og öllu afskaplega huggulegt.
Kolgríma fór út í morgun og eftir að vera búin að vera úti í roki og rigningu (smá vindi og örlítilli úrkomu) kom hún mjálmandi inn og hoppaði upp í fangið á mér, lét mig klappa sér, malaði og þvoði á sér táslurnar. Hún gengur um mjálmandi eins og hún sé að segja mér frá þessu óveðri sem hún var úti í. Hún er svo mikil dekurdúlla þessi elska, hún þolir ekki smá kulda og smá vætu.

|