05 mars 2006

Talsímatæki

Brá mér í borgina.
Aðalerindið var að fá lambið mitt til að stilla mjög svo flókið gsm-talsímatæki sem ég fjárfesti í um daginn. Hvað á það að þýða að selja miðaldra konu svona flókna græju? Mér finnst að þegar kona sem ber öll merki þess að vera fædd upp úr miðri síðustu öld kemur inn í verslun og ætlar að kaupa svona flókið tæki þá beri starfsmönnum að benda henni á eitthvað einfaldara tól.
Ég stóð eins og álfur út á flugvelli í gær og var að reyna að finna út hvernig ætti að slökkva á þessum bölvaða síma. Hélt að vélin færi í loftið án mín. Var svo heppin að Selma var á vakt á vellinum og hún benti mér á takka með rauðu merki sem ætlaður væri til að slökkva og kveikja með.
Af hverju eru ekki bara til gsm-símar með sveif? "Halló, miðstöð, ég þarf að senda eitt sms. Nú, hvað segir þú, hefur mér borist sms??? viltu lesa það fyrir mig."
Þegar við Finnur vorum ung og ástfangin þá var sveitasími á Gunnlaugsstöðum. Þá gat maður hringt í 02 og fengið símasamband upp í sveit, stutt, löng, stutt - eða hvernig sem hringingin var nú.
"Hæ..............blessuð.............hvað segir þú?...............svo sem ekkert............humm..............hvað ertu að gera?...........ekkert sérstakt..............ætlar þú á ball?................veit ekki, en þú?...............kannski."
Svona voru símtölin þrungin spennu og hlaðin orðum sem ekki voru sögð. Kannski að einn gamall bóndi lægi á línunni og við hlustuðum á þungan andardrátt hans. Einu sinni man ég að það kom óþolinmóð rödd sem sagði "Krakkar, vilji'ði leggja á ég þarf að ná í dýralækninn."
Svo fór ég til Reykjavíkur og þá gat maður hringt í 02 og beðið um collect samband við pabba og mömmu heima á Egilsstöðum og talað lengi á þeirra kostnað. Þau voru svo ánægð að heyra í örverpinu að það var ekki talið eftir. "Viðtalsbil" sagði talsímakonan með jöfn millibili og þegar hún var búin að segja það nokkrum sinnum var tími til að kveðja, dýrt að tala milli landshluta.
Í þá daga var Nokia bara merki fyrir græn eða svört vaðstígvél.
Við Kolgríma reyndumst eiga hauk í horni hér í heimbyggð. Henni var klappað og hún fékk mjólk í gærkvöldi áður en hún fór inn í mannlaust rúmið mitt og lagðist til svefns. Ég gat því sofið róleg í Reykjavík. Þetta var hinn besti túr og ég hitti ótrúlega marga ættingja miðað við að þetta var bara sólarhrings ferðalag.

|