08 september 2006

Krabbameinsskoðun

Ég fór í krabbameinsskoðun í morgun.
Allt gekk vel. Rafmagnið hékk inni allan tímann, ég gat svarað flestum spurningum eins og t.d. hvað ég ætti mörg börn og svoleiðis. Svo voru aðrar sem ég gat ekki munað svarið við eins og hvenær Rósa frænka var síðast í heimsókn - æi, bara einhvern tíma í ágúst - eins og mér sé ekki sama. Af hverju ég hefði komið í skoðun??? - nú, ég fékk bréf og mér var sagt að koma, annars hefði ég ekki fattað að mæta.
Svo voru brjóstin klesst og pressuð, fyrst upp og niður og svo út og suður og teknar myndir.
Ég er nú farin að hafa áhyggjur af starfsöryggi Jobba - það kemur fólk að sunnan í þessar myndatökur og svo er sýslumaður farinn að dunda við passamyndatökur og þá missti nú Jobbi spón úr aski sínum. Svo er rannsóknarlögreglan að reyna að koma sér upp aðstöðu til að taka myndir af Bjarnarbófunum.
Nema hvað, það sem er fréttnæmt við þessa krabbameinsskoðun er að nú voru komin alveg ný dress. Búið að leggja gömlu grænu sloppunum sem maður vissi eiginlega aldrei hvernig áttu að snúa. Í staðinn eru komin græn og bleik pils. Græn fyrir litlar, bleik fyrir stórar konur. Sniðugt að hafa litina svona því það vildu allar konurnar frekar vera í bleikum pilsum heldur en grænum.
Nú, pilsin voru ekki með teygjuna um mittið heldur fyrir ofan brjóstin. Þetta var mjög hentugt án þess að ég ætli að lýsa því nánar.

|