23 nóvember 2006

Gömul kerling og kulvís köttur

Eitthvað fer þessi aldur illa í mig.
Ég hef verið alger drusla það sem af er 49. aldursárinu. Ég hef meira að segja ekki mætt í vinnuna ótilneydd.
Ég þurfti að hitta lækni og ekki hefur heilsugæslustarfsfólkinu litist vel á mig því í gær fékk ég tíma á flýtivakt hjá Ólafi sem er með sérmenntunina heila- og taugaskurðlæknir. Pétur læknir hringdi til mín í símatíma, ég sagði honum að ég ætti tíma á flýtivaktinni þannig að erindið yrði afgreitt þar, en þakkaði honum fyrir að hringja. Svo til að kóróna allt var ég líka bókuð hjá doktor Hrönn. Ég sá Óttari bregða fyrir og Stefán heilsaði mér þegar hann gekk fram hjá biðstofunni þannig að ég held ég hafi bara séð alla lækna Egilsstaða í gær. Það er ýmist í ökla eða eyra þegar maður þarfnast læknisaðstoðar. Ég sá meira að segja einn húð og kyn á vappi, en það var nú bara aðkomulæknir og örugglega bara að sinna aðkomufólki, eins og menn myndu segja á Akureyri.
Kolgríma hættir sér ekki langt út í þetta vetrarríki sem hér er. Hún ver löngum stundum í gluggakistunum og horfir yfir snjóbreiðuna, bregður sér sem snöggvast út en þegar hún heyrir að ég er að fara að loka þá kemur hún mjálmandi á hendingskasti og vill ekki vera lengur úti.
Svona gengur nú lífið hjá okkur kisu þessa dagana.

|