10 mars 2007

Bagetabler

Nú þyrfti ég að fá smá skammt af bagetabler.
Það eru töflur sem húsmæður notuðu um miðja síðustu öld til að koma af öllum þeim verkum sem þær þurftu í desember. Skúra, skrúbba, bóna, baka, sauma, skamma og skeina.
Í Háskóla Íslands bruddu menn þessar töflur í prófunum og það þótti ekki meira mál en þegar við fáum okkur hnetur og rúsínur.
Ég hef verið að rífa í hnakkadrambið á sjálfri mér síðan í morgun að það myndaðist smá rifa á augun á mér. Ég var svolítið að spá í að breiða bara sængina yfir haus aftur og láta sem þessi dagur kæmi mér ekkert við.
En það vita nú allir hvað svoleiðis kann góðri lukku að stýra svo ég rak sjálfa mig á lappir, út að hjóla, upp í vinnu og út í búð. Fín sparnaðarleið að fara á hjólinu að versla í staðinn fyrir að fara á station-bíl. Ef ég fer á bílnum þá tíni ég saman alls konar óþarfa en ef ég fer á hjólinu verða innkaupin að miðast við körfuna á stýrinu. Mjög hagkvæmt.
Dreif mig í að þvo gluggana að innanverðu þegar heim kom. Kolgríma var úti í garði og fylgdist með hvort stofugluggarnir væru nógu vel þvegnir.
Best að fara bara aftur út að viðra sig, góður göngutúr virkar örugglega eins vel og bagetablerne.

|