19 apríl 2007

Gleðilegt sumar

Sumar heilsar okkur Héraðsmönnum fallega.
Það er reyndar hvít jörð, en sólin skín og veðrið er stillt og fallegt.
Við hljótum að fá gott sumar ef marka má þá gömlu trú að ef sumar og vetur frýs saman verði sumarið gott. Ekki verri veðurspá en hver önnur.
Pökkunarstarfið gengur ótrúlega vel.
Það er alltaf verið að bjóða mér hjálp en ég vil bara fara ein og sjálf í gegnum þetta dót. Ég þarf hins vegar á hjálp að halda þegar kemur að því að bera dótið út í gám.
Ég er að fara lið fyrir lið í gegnum líf mit og það rifjast upp bæði góðar og sárar minningar þegar ég handleik alla þessa hluti og allan þennan pappír. Ég flokka hvað af þessu á erindi inn í næsta kafla lífs míns og þó ég viti að ég gæti verið duglegri að skilja við fortíðina hef ég samt sem áður verið nokkuð seig í þessu starfi.
En svo koma líka gullmolar upp í hendurnar eins og teikningar og bréf sem dæturnar hafa verið að skrifa strax og þær voru búnar að læra að draga til stafs.

|