12 apríl 2007

Lata Gréta á hraðferð

Það má segja að ég hafi farið í snöggan Hafnartúr í gær.
Ferðin tók allt í allt frekar fáa klukkutíma. Ég var ein á ferð og fór Öxi. Ég var alveg eldsnögg niður í Berufjörð og var með skemmtilega tónlist að hlusta á. Stoppaði í botni Berufjarðar, dró upp kaffibrúsann, horfði á spegilsléttan sjóinn, tjalda og aðra fugla í flæðarmálinu. Gaman að sjá farfuglana. Svo bara brunaði ég áfram og fór frekar greitt, ég ætla ekki að nefna neinar tölur þar sem ég þekki löggu sem ég veit að les bloggið. Það var óvenju mikið grjót í Þvottárskriðum og ég sveigði fimlega fram hjá því og líka grjótinu í Hvalnesskriðum. Nema hvað, það var kominn svona dálítill formúlufílingur í mig í Lóninu enda var ég að hlusta á Megas syngja við trommuundirleik uppáhalds trommuleikara míns, Sigtryggs Baldurssonar. Hreinn snillingur á trommum. Svo þar sem ég er farin að lifa mig virkilega inn í aksturinn og sé að ég er að setja hraðamet á leiðinni Egilsstaðir, Höfn, þá er ég bara stoppuð. Ekki af löggunni sem betur fer, heldur einhverjum kvikmyndatökumönnum sem voru að taka upp Porshe auglýsingu. Mér finnst nú að ég hafi sýnt svo mikla aksturshæfileika að ég hefði átt að fá hlutverk í auglýsingunni. Ég spjallaði smá við strákinn sem stoppaði mig meðan ég beið eftir að kvikmyndatökunni lyki og hann fræddi mig á að einn svona Porshe kostar 30 til 40 millur. Já, ætti maður að fá sér einn??? Nei, þetta eru of margar millur fyrir of lítið notagildi.
Súbarúinn er náttúrúrulega forugur upp á topp eftir þetta ferðalag og ég ætlaði á þvottaplanið í dag þó ég nennti því engan veginn. Veðurguðirnir eru mér hliðhollir og hafa stinningskalda þannig að það fer engin heilvita manneskja að standa með þvottakúst úti í þessum strekkingi.

|