15 apríl 2007

Pakköld

Enn geysar pakköld á Reynivöllum.
Gréta Aðalsteins sakar mig um að rísa ekki undir nafni, Lata Gréta í bókinni hafi farið seint á fætur en ekki kl. 8 og alls ekki um helgar.
En ef þetta dót mitt á að hverfa úr húsinu fyrir afhendingu þá er eins gott að taka daginn snemma.
Ég bauð Grétu til mín í kaffi í morgun, hún ætlaði að koma hjólandi. Þegar ég fór að undirbúa kaffigerð þá sá ég að kaffilaust var í kotinu og þar sem Gréta þurfti að hjóla yfir Egilsstaðanesið taldi ég mig hafa nægan tíma og skaust í söluskálann.
Þar er nú frekar lítið og lélegt kaffiúrval en ég greip þarna skásta pakkann úr hillunni, grænan Gevalia. Þegar kom að því að borga þá datt nú af mér andlitið, ég vissi ekki að kaffi væri svona askoti dýrt. Ég var eitthvað að mæðast um þetta við Eðvald afgreiðslumann og hann vildi meina að best væri að hafa samband við Grétu og segja henni að vera ekkert að koma, það væru breytar forsendur.
Svona fer fyrir íslenskri húsmóður sem tínir bara það sem hana vantar í innkaupakörfuna, maður missir alveg tengsl við verðmiðana, enda kann ég ekki að lesa úr þessum strikamerkjum.
Gréta sat á þvottahúströppunum þegar ég kom heim með kaffipakkann og svo var náttúrulega slúðrað yfir kaffibollum. Verst að Gréta skyldi koma á hjóli, annars hefði ég geta losað mig við mun meira dót en kemst í eina litla hjólakörfu.
Ef þið ætlið að kíka í kaffi til mín, endilega komið þið á rúmgóðum bíl.

|