05 ágúst 2007

Æðruleysi

Nú er gott að kunna æðruleysisbænina.
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.
Ég fer með bænina aftur á bak og áfram, oft á dag um þessar mundir.
Það gengur allt öfugt við það sem það ætti að ganga ef ég fengi einhverju ráðið. Veðurspáin getur ekki einu sinni druslast til að rætast þennan eina dag í sumar sem ég hef haft þörf fyrir að hún rættist. Við mæðgur ætluðum að gramsa í gáminum í dag, tína út úr honum eitt og annað og finna dót sem örverpið mitt ætlar að nota í fínu íbúðinni sem hún og unnusti hennar voru að kaupa í höfuðstaðnum. Þau hafa komið akandi að sunnan til að vinna þetta verk en það bara rignir og viðrar ekki til þess.
Í gær kom ég upp í Skógarkot og þá sátu skoskir feðgar í svefnherberginu mínu, drukku kaffi og reyktu. Guð má vita hvað menn af mörgum þjóðernum hafa verið að þvælast í svefnherberginu mínu. Tengdasonur minn benti mér á að flesta konur myndu missa mannorðið ef svefnherbergi þeirra væri svona eins og alþjóðleg brautarstöð.
Jæja, en Skotarnir eiga að mála bílskúrinn minn aftur, Pólverjunum var ekki sagt nógu vel til verka svo það verður að byrja upp á nýtt.
Ég ætla að hafa stjörnuspána mína bak við eyrað í dag og ekki láta smá mótlæti beygja mig. Skyldi það vera skynsamleg ákvörðun að fara bara í pollabuxur og kíkja eftir sveppum?
Sporðdreki: Sagan er rituð af sigurvegurum. Vertu einn af þeim og skrifaðu sögu lífs þíns. Með það í huga tekurðu skynsamari ákvarðanir.

|