09 ágúst 2007

Strokukettir

Ég stend mig ekki vel sem kattagæslukona.
Þórhallur og Guðlaug fóru til Akureyrar fyrir verslunarmannahelgi og mér var falið að passa húsið og kettina, þ.e. fressköttinn Grisling og svo elskuna hana Kolgrímu mína.
Maggi fór á Rolling Stones tónleika í Köben og ég tók að mér að passa Garp.
Grislingur var heima í einn dag en síðan hefur ekkert til hans spurst. Garpur var lengur heima en hefur ekki sést síðan á sunnudag.
Kolgríma mín er hins vegar vel upp alin og skilar sér heim, hún er ekki fyrir það að vera að þvælast úti á kvöldin og á nóttunni.
Ef þið sjáið Grisling, hvítan ólarlausan kött með grábröndóttar skellur eða Garp sem er gulbröndóttur eða næstum því rósóttur köttur með svarta ól, þá vinsamlegast látið mig vita hér á síðunni.
Maggi keypti handa mér forláta Georg Jensen-dót í Illum Bolighus, ég verð örugglega að skila honum því aftur ef kötturinn kemur ekki heim - svo elskurnar mínar, þið sem búið á Egilsstöðum, kíkið út í garð og í kringum húsin ykkar og látið mig vita ef svona kettir sjást þar.
Í gær var ég að þvælast um virkjanasvæðin á Eyjabökkum og við Kárahnjúka. Æi, ég verð bara sorgmædd að horfa á þetta, sérstaklega á Eyjabökkunum. En á leiðinni út Fljótsdalsheiði var mjög fallegt. Í kvöldsólinni naut ég þess að horfa á tjarnir kringdar fallegum fífum, á fjallahringinn, Snæfellið, Herðubreið, Vatnajökul, Eyjabakkajökul, Þrándarjökul og á Austfjarðafjallgarðinni. Á litlu vatni voru álftahjón með fjóra unga. Væn lömb bitu heiðargróðurinn og hreindýraveiðimenn voru að hvíla sig eftir daginn. Að aka niður með Bessastaðaánni er næstum eins og að vera í flugvél sem er að koma inn til lendingar á Egilsstöðum.
Já, það er gott að búa á Fljótsdalshéraði og hálendi Austurlands er ótrúlega fallegt.

|