17 október 2007

Feit og ljót

Vaknaði með hausinn fullan af leiðinlegum hugsunum.
Sannfærð um að ég væri feitust og ljótust. Þokkalegt að vakna svona, en þetta er það sem við konur erum að kljást við. Endalausar hugsanir um útlitið.
Þegar ég vakna með svona höfuðfyllingu þá á ég auðvitað engin föt til að fara í, þau eru alveg jafn ómöguleg og ég.
En þar sem ég stóð nú framan við spegilinn, burstaði tennurnar og horfði á þessa feitu og ljótu konu, þá rann upp fyrir mér ljós. Ég hef aldrei vaknað með hausinn fullan af hugsunum um að ég væri heimsk og vitlaus. Ég er ekkert að efast um vitsmunalega burði mína, hvað er ég þá að láta útlitið trufla mig.
Ég er bara bústin og ekkert ljótari en gengur og gerist. Það er bara allt í lagi með mig, ég er bara 48 ára gömul kona og ég er hraust og heilbrigð, þannig að ég ætla bara að beina huganum að því og vera þakklát.
Svo ætla ég að hafa stjörnuspána bak við eyrað, leiðin liggur sem sagt bara upp á við: Sporðdreki: Horfurnar virðast yfirþyrmandi,en þú ert í fullkominni aðstöðu til að takast á við það sem koma mun. Byrjaðu smátt og byggðu þig upp. Gríptu svo tækifærin.

|