31 mars 2008

Fyrsti kærastinn minn

... er fimmtugur í dag.
Ég var fjögurra ára stelpuskott og það var von á nýrri fjölskyldu í hina íbúðina á Neðstutröð 8 í Kópavogi.
Ég stóð í karrýgulri, ermalausri rúllukragapeysu á tröppunum og horfði full eftirvæntingar á drossíuna sem renndi í hlað.
Mikið varð ég glöð þegar ég sá lítinn koll kíkja út um afturgluggann á bílnum og sá að ég myndi eignast leikfélaga.
Við Gauti urðum strax góðir vinir, svo góðir vinir að við ákváðum að þegar við yrðum stór þá myndum við verða hjón. Enda mjög heppilegur ráðahagur þar sem við áttum heima í sama húsinu.
En svo bregðast krosstré og ég flutti með foreldrum mínum af Neðstutröðinni þegar ég var 8 ára svo það varð ekkert af ráðahagnum.
Ég sendi mínum gamla vini í Kópavogi bestu hamingjuóskir í tilefni dagsins og vona að hann erfi það ekki við mig þótt ég hafi svikið hann í tryggðum. Enda réði ég víst litlu um þessa búferlaflutninga fjölskyldunnar.

|