09 mars 2008

Að éta ofan í sig

Við Nína byrjuðum daginn á Jómfrúnni í Lækjargötu.
Þangað mættu nokkrar úr Reykjavíkurdeild Gleðikvennafélags Vallahrepps. Með dönsku smurbrauði fékk ég að éta ofan í mig það sem ég hef sagt um fyrirhugað landtöku af Egilsstaðabændum.
Konur úr Reykjavíkurdeildinni vildu að sjálfssögðu fá fréttir af því sem efst er á baugi hér fyrir austan, Nína útskýrði m.a. þetta hitamál og þá komst ég að því að ég hef misskilið þetta mál hrapalega. Ég hélt að það væri verið að ásælast túnin milli þjóðvegarins og Egilsstaðabýlisins en svo er víst aldeilis ekki. Það er verið að ásælast túnin milli Bónus og flugvallarins.
Ég verð því að éta ofan í mig það sem ég hef sagt ljótt um bæjaryfirvöldin á Fljótsdalshéraði, því ég sé nú engan skaða í að byggja á þessu svæði.
Hér sannast því það spakmæli að maður skal hafa orð sín mjúk og mild því maður getur þurft að éta þau ofan í sig aftur.
En nú er ég komin heim úr skemmtilegri höfuðborgarferð og ég fékk afskaplega góðar móttökur hjá Klófríði og Kolgrímu.
Kettir breytir því að koma í tómlegt hús í hlýja heimkomu.

|