26 maí 2008

H-dagurinn

40 ár síðan við fórum yfir á hægri akrein!
Ég man hvað þetta var merkilegur dagur 26. maí 1968. Þó ég væri bara tæplega 10 ára fannst mér þetta stórmerkilegur atburður.
Það var búið að dreifa alls konar kynningarefni og ég var svo hrifin af límmiðunum sem á var prentað eitt stórt H. Þetta voru líka fyrstu límmiðarnir sem ég eignaðist, áður hafði ég bara þekkt glansmyndir, sem voru auðvitað miklu fallegri, en límmiðinn var svo nýstárlegur svona sjálflímandi. Samt var hann óttalega litlaus þegar ég hugsa um hann. Næstu límmiðar sem maður fékk var STP, einhver smurolíuauglýsing. Þeir voru litríkari en H-miðinn.
Að morgni 26. maí 1968 fór ég með pabba og tveimur elstu bræðrum mínum í bíltúr. Pabbi ætlaði að leyfa þeim að æfa sig að aka í hægri umferðinni í Reykjavík. Göturnar í Kópavogi voru bara moldartroðningar svo það var ekki eins gaman að æfa sig þar.
Við fórum á gamla Rússajeppanum og ég man einhvern veginn best eftir okkur á Snorrabrautinni.
Ég held að í allri bílasögu Íslands hafi menn aldrei verið eins tillitssamir og brosmildir í umferðinni eins og þennan vordag 1968.

|