06 maí 2008

Vorverkin

Þá er nú Súbbi minn kominn á sumardekkin.
Á morgun fer hann í snyrtingu í Bílamálun. Strákarnir þar eru vanir að ganga hringinn um bílinn minn einu sinni á ári og bletta hann og Súbbi minn er nokkuð hruflaður eftir veturinn, grjótkast og svona. Það á líka að laga skrámuna sem hann fékk um daginn þegar Ítalinn var að þvælast fyrir mér á planinu við Húsasmiðjuna og bakkaði á mig þar sem ég var í mesta sakleysi að bakka út úr stæðinu á móti.
Ég er búin að fara í klippingu, svo fer ég í plokkun á snyrtistofunni á fimmtudaginn og Klófríður á tíma hjá dýralækninum á föstudaginn.
Hún er farin að fara í kvöldgöngur í vorblíðunni með fressketti hér í hverfinu svo ég neyðist til að fara með hana í ófrjósemisaðgerð.
Ég fékk hræðilegt samviskubit yfir að vera búin að panta tíma hjá dýra í kvöld þegar ég horfði á eftir henni skottast með kærastanum út í skóg, svona líka léttfætt og ánægð með tilveruna. En í gærkvöldi náði ég henni ekki inn fyrr en um miðnætti og það er náttúrulega ekki við hæfi að sómasamlegar læður séu á flandri úti á nóttunni.
Speki dagsins á dagatalinu mínu er svona, sönn hamingja byggist á því að vera þakklátur fyrir það sem þú hefur.

|