Ég var að baka ...
... baka brauð.
Ég bakaði þessi líka fínu brauð í dag. Mér hefur aldrei nokkurn tíma tekist svona vel með gerbakstur.
Ég veit ekki hvað veldur því að þetta lukkaðist allt í einu hjá mér. Kannski er það bakaraofninn eða kannski var það uppskriftin. Ég held að það sé hvort tveggja.
Ég fékk svo fína uppskrift hjá Kristjönu frænku minni. Ég kalla þessi brauð Oddvitabrauð með orðbragði, því Kristjana stóð krossbölvandi yfir brauðbakstri í eldhúsinu í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum. Á þeim tíma var Kristjana oddviti á Borgarfirði.
En brauðin voru svo góð hjá henni, þrátt fyrir orðbragðið, að ég fékk uppskriftina og þetta er frábær brauðuppskrift. Fínt kreppubrauð enda kyrrar það hugann að hnoða brauð.
3 brauð.
5 dl blanda af hafragrjónum, kornfleksi, sesamfræjum, sólblómafræjum, eða öðrum fræjum. Má líka hafa saxaðar rúsínur.
15 dl hveiti
2 deildir ger
2 tsk salt
Öllu blandað saman
2 msk púðursykur eða sýróp, leyst upp í 8 dl. af vel volgu vatni og blandað við þurrefnin.
Látið hefast. Brauðin pensluð með vatni (ég notaði úðabrúsa) og bakist í 35 mín. í 200°C heitum ofni.
Verði ykkur að góðu!