31 desember 2008

Gamársdagur

Þá er enn eitt árið á enda runnið.
Gamlársdagur hefur alltaf skipað sérstakan sess í minni fjölskyldu. 31. des. 1949 giftu pabbi og mamma sig og 31. des. 1979 giftum við Finnur okkur
Þessi mynd var tekin af okkur nýgiftum með frumburðinn, Finnur tók myndina á flottu Pentaxvélina sem hafði kostað hann ein mánaðarlaun kennara. Svona var verðlagið í þá daga. Finnur rétt náði að setjast áður en vélin smellti af.

Árið sem er að líða hefur verið viðburðaríkt hér í Skógarkoti. Eftir miklar þreifingar og mikið þóf ákváðum við Maggi að gerast kærustupar og það hefur lukkast vel hjá okkur.
Við erum m.a. búin að fara í tvær ferðir til útlanda og margar ferðir á fjöll. Þetta hefur allt verið mjög skemmtilegt eins og nokkra daga dvöl í Hvannalindum í sumar.
Hér erum við á þorrablóti 4x4 í Kverkfjöllum sl. vetur.

Hér erum við í Marokkó tveimur dögum fyrir bankahrunið mikla.

Framundan er ár sem verður erfitt fyrir margar fjölskyldur. Atvinnuleysi og þröngt í búi.
Sjálf er ég í nokkuð góðum málum og vona að ég standi af mér stormana sem munu blása. Það er mikils virði að eiga gott var í öruggu skjóli með vinum og vandamönnum.
Ég hef margt til að vera þakklát fyrir og ég held inn í árið 2009 með æðruleysisbænina í farteskinu: Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.
Það er byrjaður undirbúningur fyrir kvöldið hér á bæ. Maggi er að handera rjúpur í þvottahúsinu og Kolgríma er að reyna að fá að taka þátt í því. Dagurinn verður notaður í að hafa til góðgæti til að bjóða gestum sem von er á í kvöld. Það sér svo vel yfir þorpið héðan úr Skógarkoti þannig að ef einhver hefur keypt flugelda þá sjáum við þegar þeim verður skotið upp.
Ég óska ykkur öllum gleði og friðar í kvöld, farsældar á nýju ári og bestu þakkir fyrir allt gott á árinu sem er að líða.

|