27 janúar 2009

Ágreiningur

Það kom upp smá vandamál í gær.
Ég mætti niður á elliheimili til að lesa og þá sátu vinir mínir allir og voru að horfa á sjónvarpið. Þeir voru að fylgjast með öngþeyti íslenskra stjórnmála og hvernig allt er komið í kalda kol í samfélaginu sem þeir hafa varið allri sinni ævi í að byggja upp.
Það var þá spurning hvort menn vildu horfa á stjórnmálin í beinni eða hlusta á mig lesa. Sumir áttu svolítið erfitt með að gera það upp við sig en eftir að greidd höfðu verið atkvæði á lýðræðislegan hátt dró ég upp bókina Útkall - flóttinn frá Vestmannaeyjum.
Einn af mínum dyggustu hlustendum átti mjög erfitt með að slíta sig frá fréttunum og honum var boðið að koma í annað herbergi og horfa þar á sjónvarp. Það yljaði mér um hjartarætur að hann kaus það að lokum að hlusta frekar á lestur.
Enda sagði ég honum að það myndi örugglega ekki gerast neitt merkilegt á Íslandi þessar 45 mínútur sem við myndum hverfa 36 ár aftur í tímann og inn í þá ógnaratburði og hamfarir þegar það hófst gos í Vestmannaeyjum.
Mér fannst dapurlegt að sjá gamla fólkið sem unnið hefur hörðum höndum allt sitt líf vera að fylgjast með því á ævikvöldi sínu að Ísland siglir hraðbyr til glötunar.
Kannski er Ísland í dag í ekkert ósvipuðum aðstæðum og Vestmannaeyjar voru í upphafi goss. Glundroði og óvissa. Hamfarir - ekki af náttúrunnar völdum heldur af mannavöldum. Það er bara vonandi að uppbyggingin gangi eins vel og hún gekk þá.

|